Innlent

Mestu fólksflutningar á Íslandi frá Vestmannaeyjagosi

Framundan eru einir mestu fólksflutningar á Íslandi frá því í Vestmannaeyjagosinu árið 1973 þegar fólk tekur að streyma úr Reyðarfirði og frá Kárahnjúkum. Álverið eystra verður tekið formlega í notkun á morgun.

Reikna má með miklum fólksflutningum frá Reyðarfirði í framhaldi af því að álver Fjarðaáls fer í fulla starfsemi. Nú starfa 1550 manns við byggingu og lokafrágang álversins. Þeir voru hins vegar flestir um 2000 í apríl síðastliðnum að sögn Björns S. Lárussonar, framkvæmdastjóra hjá Bechtel International, sem hefur stýrt byggingu álversins.

Í dag eru starfandi 17 til 1800 manns í Kárahnjúkum. Fólki tekur að fækka allsnarlega þar í haust.

Fjarðaál tók til starfa í byrjun apríl síðastliðnum en verður formlega tekið í notkun á morgun.

Í tilkynningu frá Náttúruverndarsamtökum Íslands, sem bast í morgun, er fullyrt að Fjarðaál verði fyrir töluverðum fjárhagslegum skaða vegna tafa á afhendingu orku frá Kárahnjúkavirkjun.

Fullyrt er að afhending orku muni tefjast um a.m.k. 6 mánuði og að Alcoa gæti því krafið Landsvirkjun um skaðabætur vegna framleiðslutaps.

Tómas Már Sigurðsson, forstjóri Fjarðaáls, segir að samstarf við Landsvirkjun miði að því að lágmarka tap beggja aðila:

Sigurður Arnalds, talsmaður Landsvirkjunar, segir að fullyrðing Náttúrverndarsamtaka Íslands sé yfirdrifin, fyrsta orkuafhending sé hafin samkvæmt áætlun, töf verði á annarri afhendingu um þrjá mánuði og lokaafhending verði lítið á eftir áætlun.

Framleiðslugeta álversins nýja verður 346 þúsund tonn. Samkvæmt upplýsingum frá Alcoa metur Hagfræðistofnun Háskóla Íslands það svo að yfir 900 störf verði til í landinu vegna starfsemi Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×