Innlent

Davíð með þriðjungi hærri laun en Geir

Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar Seðlabankans, verður með rúmar 1,7 milljónir króna í laun frá og með næstu áramótum, eða sex hundruð þúsund króna hærri laun en forsætisráðherra. Formaður bankaráðs bankans skýrir síðustu launahækkanir bankastjóranna með harðri samkeppni um hæft starfsfólk.

Fréttastofan skrifaði Helga S. Guðmundssyni, formanni bankaráðs Seðlabankans, og bað um rökstuðning fyrir ákvörðun ráðsins að hækka laun banakstjóra bankans nú þegar um eitt hundrað þúsund krónur á mánuði og svo aftur um sömu upphæð um næstu áramót.

Ákvörðunin þýðir að grunnlaun bankastjóranna verða orðin 1.409.535 krónur um áramótin. Það segir þó ekki alla söguna því bankastjórarnir fá 110 þúsund krónur á mánuði aukalega í svo kallaða bankaráðsþóknun, en upphæðin er ákveðin af forsætisráðherra.

Formaður bankastjórnar, Davíð Oddsson, fær heldur meira en hinir bankastjórarnir. Hann fær tvöfalda bankaráðsþóknun auk 8 prósenta álags á laun bankastjóra fyrir formannsstörf sín. Þetta þýðir að venjulegur bankastjóri verður með 1.519.535 krónur á mánuði þegar bankaráðsþóknunin er meðtalin en Davíð verður með 1.742.297 krónur á mánuði.

Geir H. Haarde forsætisráðherra mun hins vegar vera með 1,1 milljón krónur á mánuði í laun þegar allt er talið hjá honum. Formaður bankastjórnar Seðlabankans hefur því gott þingfararkaup umfram forsætisráðherra í launum.

Frá ársbyrjun 2005 til 1. janúar á þessu ári höfðu laun bankastjóranna hækkað um 25 prósent. Helgi S. Guðmundsson, formaður bankaráðs Seðlabankans segir í svari við fyrirspurn fréttastofu Stöðvar tvö: „Hörð samkeppni er um hæft starfsfólk á meðal fjármálastofnana sem kemur ekki á óvart eins hratt og umsvif íslenskra banka hafa vaxið. Afar mikilvægt er fyrir Seðlabankann að hafa jafnan í þjónustu sinni eins gott starfslið og völ er á og verður hann að taka mið af ríkjandi umhverfi til þess að svo geti verið."

Í svarinu kemur jafnframt fram að bankastjórarnir hafi hver um sig bifreið til afnota sem bankinn leggi þeim til og greiði kostnað af ásamt símakostnaði bankastjóranna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×