Innlent

Stúdentar vilja frítt í strætó á öllu höfuðborgarsvæðinu

Gunnar Valþórsson skrifar
Aðeins níu prósent háskólanema taka strætó í skólann á meðan 66 prósent fara á einkabíl.
Aðeins níu prósent háskólanema taka strætó í skólann á meðan 66 prósent fara á einkabíl. MYND/Hari

Stúdentaráð Háskóla Íslands og Bandalag íslenskra námsmanna hafa sent stjórn Strætó bs. erindi þess efnis að frítt verði í strætó fyrir alla námsmenn á höfuðborgarsvæðinu á komandi skólaári. Í tilkynningu frá hreyfingunum kemur fram að Reykjavíkurborg hafi þegar tekið slíka ákvörðun og þess vegna vonast námsmannahreyfingarnar eftir því að hin sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu fylgi í kjölfarið.

Bent er á að kostir þess að veita námsmönnum frítt í strætó séu fjölmargir. Félagstofnun stúdenta gerði í maí könnun á meðal stúdenta við Háskóla Íslands þar sem m.a. var spurt hvernig nemendur ferðuðust til og frá skóla. „Í dag nota 9% stúdenta við HÍ strætó til þess að komast í skólann á meðan 66% koma á einkabíl og 25% koma gangandi eða á hjóli. Þegar spurt var hvernig nemendur myndu ferðast í skólann ef frítt yrði gefið í strætó svöruðu 43% að þeir myndu taka strætó, 35% að þeir myndu nota einkabílinn og 21% að þeir myndu ganga eða hjóla," segir í sameiginlegri tilkynningu frá hreyfingunum.

„Þessar niðurstöður gefa sterklega til kynna að stúdentar geta vel hugsað sér að taka strætó í verulega auknum mæli og að verðið á þjónustunni skipti þá miklu máli," segir ennfremur. Þá er á það bent að umferðarþungi og mengun, til dæmis í formi svifryks, eru að verða vaxandi vandamál á höfuðborgarsvæðinu og að sveitarfélögin hljóti að vilja bregðast við því.

„Þarna geta stjórnarmenn í Strætó bs. séð svart á hvítu hvaða kostir gætu fylgt því að gefa stúdentum frítt í strætó."

Afrit af erindinu var einnig sent til allra bæjarstjóra á höfuðborgarsvæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×