Innlent

Framleiðendur vilja skýrar reglur um notkun íslenska fánans

Íslenskir framleiðendur hafa beðið í níu ár eftir reglugerð sem segir hvernig nota má íslenska fánann á umbúðir íslenskrar framleiðslu. Ekkert bólar á reglugerðinni og formaður samtaka iðnaðarins kallar eftir skýrum línum.

Þótt íslenskum fyrirtækjum sé heimilt samkvæmt breytingum á fánalögunum frá 1998 að setja íslenska fánann á framleiðsluvörur sínar eru ýmsar skorður settar við slíkt. Forsætisráðuneytið þarf að veita leyfi til þess og starfsemin þarf að uppfylla ákveðnar gæðakröfur sem eiga að vera skilgreindar sérstaklega í reglugerð sem lögin vísa til. Sveinn Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir að þessi reglugerð hafi aldrei verið gefin út.

Sveinn telur mikið gagn fyrir íslensk fyrirtæki að nota fánann á framleiðsluvörur sínar en um það þurfi að gilda afar skýrar reglur. Þórhallur Vilhjálmsson, lögfræðingur hjá Forsætisráðuneytinu, sagði í samtali við fréttastofuna að engin vinna færi fram af hálfu ráðuneytisins við smíði reglurgerðar sem skilgreindi í hverju þær yrðu fólgnar. Sveinn segir að hnattvæðingin hafi gert það að verkum að erfitt sé nákvæmlega að skilgreina hvað sé íslenskt og hvað ekki.

Sveinn vill meina að íslensku atvinnulífi stafi ekki einungis ógn af ólöglegri notkun fánans og af blekkingum um uppruna ákveðinna vara því Íslendingar hafi jafnvel ekki vald yfir nafni á eigin landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×