Innlent

Rökstuddur grunur um brot á samkeppnislögum

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, segir að húsleit hjá Mjólkursamsölunni í morgun hafi verið gerð vegna rökstudds gruns um brot á samkeppnislögum. Ólafur Magnús Magnússon hjá Mjólku hf, segist fagna þessari aðgerð og treysta á réttláta niðurstöðu. Magnús Ólafsson, aðstoðarforstjóri MS, segist ekkert hafa að fela.

Starfsmenn Samkeppniseftirlitsins stormuðu inn í höfuðstöðvar Mjólkursamsölunnar, Osta og smjörsölunnar og Auðhumlu í morgun og hófu öflun gagna vegna rökstudds gruns um brot á samkeppnislögum. Rannsóknin kemur í kjölfarið á tveimur kærum sem Mjólka hf. hefur lagt fram vegna meintra brota Mjólkursamsölunnar á samkeppnislögum:

Forkólfar Mjólku hf. telja að Mjólkursamsalan hafi nýtt sér markaðráðandi stöðu sína til að klekkja á fyrirtæki sínu. Ólafur Magnús Magnússon, framkvæmdastjóri Mjólku, fullyrðir að Mjólkursamsalan hafi beitt undirverðlagningu á vörum í samkeppni við Mjólku. Hann fagnar þessum aðgerðum Samkeppniseftirlitsins og treystir á réttláta niðurstöðu.

Aðstoðarforstjóri Mjólkursamsölunnar fullyrðir að fyrirtækið hafi kappkostað að fylgja lögum um samkeppni og að afsláttakerfi fyrirtækisins hafi alltaf verið gegnsætt. Hann segir að Mjólkursamsalan hafi ekkert að fela.

Rannsóknin framundan er gríðarlega viðamikil en gögn voru meðal annars tekin af tölvum og gagnagrunnum Mjólkursamsölunnar. Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, segir útilokað að tímasetja hvenær niðurstaða fáist úr rannsókninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×