Innlent

Fyrrum ritstjórar DV dæmdir fyrir meiðyrði

Jón Hákon Halldórsson skrifar
MYND/365

Páll Baldvin Baldvinsson og Björgvin Guðmundsson, fyrrum ritstjórar DV voru í dag dæmdir í Héraðsdómi Reykjaness til að greiða Geir Hlöðveri Ericssyni 500 þúsund krónur í miskabætur vegna ummæla sem birtust í DV í apríl á síðasta ári. Málsatvik voru þau að í fréttum í DV var sagt frá aðgerðum fíkniefnalögreglunnar og víkingasveitarinnar þegar ráðist var inn í húsnæði við Ármúla, þar sem sagt var að fundist hefðu fíkniefni.

Í frétt DV hinn 7. apríl 2006 voru eftirfarandi ummæli dæmd dauð og ómerk „Góðkunningjar lögreglunnar: Vitni segja að alls kyns óþjóðalýður hafi komið í húsnæði Sverris Þórs. Þeirra á meðal er athafnamaðurinn Geir Ericsson ..." Þá voru eftirgreind ummæli í frétt sem birtust í sama blaði þann 19. apríl 2006 einnig dæmd dauð og ómerk.

„... Geirs Ericssonar sem er að sögn heimildarmanna DV náinn samverkmaður þeirra Sverris og Ólafs."

„Geir Ericsson, náinn samstarfsmaður Svedda tannar og Ólafs Ágústs Ægissonar sem DV hefur heimildir fyrir að tengist dóphringnum."

Páll Baldvin og Björgvin voru jafnframt dæmdir til að greiða Geir Hlöðveri sameiginlega 500.000 krónur í málskostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×