Innlent

Sýknaðir af ákæru um hópnauðgun

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í dag fjóra unglingspilta af ákæru um að hafa nauðgað 14 ára stúlku í nóvember 2005. Þeir voru ákærðir fyrir að hafa þröngvað stúlkunni til samræðis við sig, sumpart með ofbeldi og sumpart með því að notfæra sér ölvunar- og vímuefnaástand stúlkunnar. Dómari komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að ekki væri sannað að mennirnir hefðu þröngvað stúlkunni til samræðis við sig þrátt fyrir að sannað þyki að samræðið hafi átt sér stað.

Fyrir dómi báru ákærðu allir fyrir dómi að stúlkan hafi ekki andmælt kynlífsathöfnum þeim sem ákærðu viðurkenndu að hafa haft við stúlkuna. Framburður stúlkunnar mun hins vegar hafa verið afar gloppóttur og reikull, eins og segir í niðurstöðu dómsins. „Ráðast úrslit máls þessa því nær einvörðungu að mati á sönnunargildi munnlegra framburða, þar á meðal frásögn X og framburðum ákærða," segir einnig.

Ákærðu voru því að fullu sýknaðir af ákærunum og greiðist sakarkostnaður úr ríkissjóði.

 

Dóminn í heild sinni má lesa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×