Innlent

Dagblöð og ruslpóstur gætu þakið vegakerfi Íslands fimm sinnum

Gunnar Valþórsson skrifar

Ársskammtur Íslendinga af dagblöðum og auglýsingapósti dugar til þess að þekja vegakerfi landsins rúmlega fimm sinnum. Að meðaltali fá íslensk heimili 176 kíló af þessum blöðum og auglýsingapósti inn um lúguna hjá sér á hverju ári. Þetta kemur fram í samstarfsverkefni nokkurra sorpsamlaga víðsvegar um landið sem unnið var árið 2006.

Dagblöðin vega mest í þessari tölu, eða 144 kíló en auglýsingapóstur er um 32 kíló á ári á hvert heimili. Samskonar mælingar voru gerðar árið 2003 og er aukningin 76 prósent.

Þá kemur fram í tilkynningu frá Sorpu að um 40 prósent pappírs fari til endurvinnslu í dag. Heildarkostnaður samfélagsins yrði um 203 milljónir ef allur pappírinn félli til á höfuðborgarsvæðinu og færi til endurvinnslu en ef hann færi allur í urðun yrði kostnaðurinn hins vegar 404 milljónir.

Sorpa segir einnig að fleiri kostir séu fylgjandi því að endurvinna pappírinn. Dýrmætt landssvæði og orka sparast og verðmætt hráefni nýtist áfram í nýjar vörur. Þá er bent á að ef allur pappírinn færi til endurvinnslu væri hægt að draga úr útblæstri sem nemur 1328 fólksbílum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×