Innlent

Vill lögreglurannsókn á mögulegum mannréttindabrotum á Goldfinger

Mögulegt er að eigandi súlustaðarins Goldfinger í Kópavogi brjóti á mannréttindum starfsmanna sinna með því að meina þeim að yfirgefa vinnustað í allt að átta klukkutíma eftir að vinnu þeirra lýkur. Þetta kom fram í máli Guðríðar Arnardóttur, oddvita Samfylkingarinnar í bæjarstjórn Kópavogs, í viðtali í Íslandi í dag. Hún segir þetta kalla á lögreglurannsókn og vill að lögreglan hafi frumkvæði í málinu.

Ásgeir Davíðsson, eigandi Goldfinger, sagði í viðtali í Íslandi í dag á föstudaginn að hann meinaði nektardönsurum að yfirgefa vinnustað í átta klukkutíma eftir að vinnu þeirra lýkur. Sagði hann þetta gert til að vernda dansarana og til að koma í veg fyrir vændi. Þá sagði hann ennfremur að þetta byggði ekki á skriflegu samkomulagi milli sín og dansaranna.

Guðríður sagði þetta ekki minna á neitt annað en mannréttindabrot og það sé borðliggjandi að lögreglan þurfi að rannsaka málið. Kallar hún á frumkvæði lögreglu og að nauðsynlegt sé að rjúfa þagnarmúr starfsmanna súlustaða á Íslandi sem virðist að hennar mati byggja á ótta við hefndaraðgerðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×