Innlent

Reykingabann gengið í gildi

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar

Virði veitinga- og skemmtistaðir ekki reykingabannið sem tók gildi á miðnætti er hægt að beita þá dagsektum, dugi þær ekki til að stöðva reykingarnar er hægt að loka stöðunum. Ekki er hægt að beita gestina sjálfa neinum peningasektum.

Reykingabann á veitinga- og skemmtistöðum og í öllum opinberum byggingum landsins tók gildi á miðnætti. Framvegis þurfa gestir veitingastaða að fara út til þess kveikja sér í sígarettu.

Slík bönn eru í gangi víða í löndum í kringum okkar en á Írlandi sér lögreglan um að framfylgja banninu og þar eiga einstaklingar sem kveikja sér í sígarettu inni á veitingastað yfir höfði sér háa sekt.

Sé einhver ósáttur við að bannið sé ekki virt hér á landi þýðir ekki að kvarta til lögreglu því hún hefur ekki eftirlit með banninu.

Ef viðskiptavinir reykja inni á stöðunum geta starfsmenn og yfirmenn þar í fyrsta lagi bent þeim á að ekki megi reykja inni, í öðru lagi vísað þeim á reyksvæði, ef það dugar ekki þá geta þeir áminnt gestina og ef þeir láta sér enn ekki segjast þá geta þeir vísað gestunum á dyr. Gestirnir eiga hins vegar ekki yfir höfði sér neinar fésektir.

Staðirnir sjálfir eiga yfir höfði sér refsingu virði þeir ekki bannið. Hægt er að beita þá dagsektum og dugi þær ekki til þá er hægt að loka stöðunum. Þeir starfsmenn sem verða varir við reykingar geta leitað til Vinnueftirlitsins en viðskiptavinir geta hins vegar leitað til Heilbrigðiseftirlitsins.

Veitingastaðir hafa leyfi til að reisa sérstök reykskýli utandyra sem þurfa þó að vera nægilega opin til að tryggja viðunandi loftstreymi. Þeir rekstaraðilar sem fréttastofa ræddi við í dag sögðu ýmislegt óljóst við þetta leyfi. Fyrir kvöldið hafa þeir flestir hugsað sér að hleypa fólki út til að reykja á sér svæði við dyrnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×