Innlent

Meiri hagsmunum fórnað fyrir minni með hvalveiðum

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra segir að verið sé að fórna meiri hagsmunum fyrir minni með hvalveiðum Íslendinga. Hún segir að aðrir en hún hafi nestað sendinefnd Íslands á þing Alþjóða hvalveiðiráðsins, sem nú stendur yfir.

Íslendingar gengu fyrir nokkrum árum í Alþjóðahvalveiðiráðið á nýjan leik eftir margra ára fjarveru, til að þrýsta á ráðið um að heimila atvinnuveiðar á hvölum. Sjávarútvegsráðherra gaf síðan út kvóta í fyrra, en það var í fyrsta skipti frá því hvalveiðum í atvinnuskyni var hætt árið 1986.

Nú stendur yfir þing Alþjóðahvalveiðiráðsins í Alaska í Bandaríkjunum, en nýr utanríkisráðherra hefur ekki verið fylgjandi veiðunum. Ingibjörg Sólrún segir að sér sé ekki kunnugt um hvernig sendifulltrúar Íslands voru nestaðir til þingsins, en hún muni fara yfir þessi mál með starfsfólki ráðuneytisins.

Ingibjörg Sólrúnsegir að málið hafi ekki verið rætt til fullnustu á milli formanna stjórnarflokkanna, en ekkert er minnst á hvalveiðar í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Hún óttast ekki ágreining um málið í ríkisstjórn og telur að það muni verða leitt farsællega til lykta.

Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra var í viðtali við Sky sjónvarsstöðina fyrr í dag og þar var ekki að heyra á honum að Íslendingar hyggðust hætta hvalveiðum í atvinnuskyni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×