Innlent

Hverfisráð Árbæjar ánægt með breytingar á leiðakerfi

MYND/Vilhelm

Meirihluti Hverfisráðs Árbæjar fagnar aukinni þjónustu Strætó bs. við íbúa í Árbæ. Þetta kemur fram í tilkynningu frá hverfisráðinu en fulltrúar minnihlutans í borginni hafa látið bóka mótmæli vegna breytinganna. Í bókunni furða borgarfulltrúarnir sig á því að ekki skuli hafa verið haft samráð við hverfisráðið.

Í tilkynningu frá hverfisráðinu kemur fram að ný leið á milli Árbæjar, Grafarholts og Grafarvogs komi í gagnið, auk þess sem leið S5 verði í gangi allan daginn og um helgar. Áður gekk leið S5 aðeins á álagstímum virka daga.

Þá segir einnig að forstöðumaður akstursdeildar Strætó bs. hafi komið á fund Hverfisráðsins í morgun og skýrt frá nýrri leiðaáætlun sem taka mun gildi frá og með næsta sunnudegi. „Í máli hans kom fram að einungis 357 farþegar að meðaltali nýta sér þjónustu leið S5 eins og hún er í dag. S-leiðirnar eru annars með frá 1600 uppí 3000 farþega á dag," segir í tilkynningunni.

Sú breyting verður á ferðum S5 að hún mun fara Rofabæ í stað Bæjarháls. Leið S5 á að fara um Sæbraut en fór áður niður Miklubraut. Leið S6 mun taka við þeim farþegum S5 sem ætla að fara niður Miklubraut og Hringbraut. Fulltrúar hvefisráðsins segja að Strætó bs. staðhæfi að þessar leiðir munu mætast í Ártúni og hinkra eftir hvor annarri. „Verði mikil aukning farþega á leið S5 er Strætó bs. tilbúið til að breyta þjónustu við íbúa Árbæjarhverfis." segir ennfremur.

Þá er tekið fram í tilkynningunni að meirihluta Hverfisráðsins hafi verið kynnt þessi niðurstaða af Strætó bs. fyrir nokkru síðan auk þess sem Ungmennaráði Árbæjar og Grafarholts voru einnig kynntar þessar nýju breytingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×