Innlent

Hringrás sýknuð af skaðabótakröfu slökkviliðsins

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í dag endurvinnslufyrirtækið Hringrás af kröfu slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins vegna mikils bruna sem varð á athafnasvæði Hringrásar í nóvember 2004. Slökkvilið krafði fyrirtækið um rúmar 25,6 milljónir króna.

Slökkviliðinu gekk erfiðlega að ráða við eldinn og fékk því aðstoð frá fyrirtækinu E.T. sem er í nágrenni Hringrásar í Sundahöfn. Vélar E. T. skemmdust í brunanum og þá þurfti að hreina til á lóð E.T. og fór því félagið fram á að vátryggingarfélag Hringrásar greiddi því skaðabætur.

Því hafnaði vátryggingafélagið á þeim grundvelli að dekkjahrúgan sem björgunaraðgerðir E.T. hefðu einkum beinst að hefði verið ótryggð. Í framhaldinu ákvað stjórn slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins að greiða þennan kostnað E.T. en höfðaði jafnframt mál á hendur Hringrás til þess að fá kostnaðinnn endurgreiddan.

Slökkviliðið hélt því fram að eigendur Hringrásar væru skaðabótaskyldir þar sem þeir hefður vanrækt öryggis- og eftirlitsskyldu sína og þannig valdið verktakafyrirtækinu E.T. tjóni með saknæmum og ólögmætum hætti.

Forsvarsmenn Hringrásar bentu hins vegar á slökkiviliðið beindi kröfum sínum að röngum aðilda því samkvæmt lögum um brunavarnir bæru vátryggingarfélög eða sveitarstjórn kostnaðinn af sérstæku slökkvistarfi eins og tilfellið var í Hringrásarbrunanum.

Undir þau rök Hringrásarmanna tók dómurinn og sagði að þar sem vátryggingarfélag Hringrásar hefði neitað greiðsluskyldu væri það sveitarstjórn, í þessu tilviki þau sveitarfélög sem standa að baki sameiginlegu slökkviliði á höfuðborgarsvæðinu, sem ætti að bera kostnaðinn af slökkvistarfi á athafnasvæði Hringrásar. Var Hringrás því sýknuð af kröfu slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×