Handbolti

Hamburg heldur í vonina

Logi Geirsson er hér í baráttunni við Bertrand Gille í leik Lemgo og Hamburg í dag
Logi Geirsson er hér í baráttunni við Bertrand Gille í leik Lemgo og Hamburg í dag NordicPhotos/GettyImages

Næst síðasta umferðin í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta fór fram í dag. Hamburg eygir enn veika von um að tryggja sér meistaratitilinn eftir að liðið vann góðan sigur á Lemgo í dag á meðan efsta liðið Kiel tapaði fyrir grönnum sínum í Flensburg. Snorri Steinn Guðjónsson var maður dagsins þegar hann skoraði 13 mörk fyrir Minden gegn Gummersbach.

Flensburg vann nokkuð öruggan heimasigur á Kiel 41-36 þar sem Pólverjinn Marcin Lijewski skoraði 11 mörk fyrir Flensburg og þeir Kasper Nielsen og Lars Christiansen 8 hvor. Kim Andersen skoraði 10 mörk fyrir Kiel og þeir Per Linders og Nikola Karabatic 7 hvor. Leikurinn var sýndur beint á Sýn. Þrátt fyrir tapið nægir Kiel að vinna sigur í lokaumferðinni til að tryggja sér enn einn meistaratitilinn, því markahlutfall liðsins er mun betra en hlutfall Hamburgara.

Hamburg lagði Íslendingalið Lemgo í dag 33-28 þar sem stórskyttan Yoon skoraði 9 mörk fyrir Hamburg. Filip Jicha skoraði 9 mörk fyrir Lemgo, Ásgeir Örn Hallgrímsson 4 og Logi Geirsson 2. Magdeburg lagði Grosswallstadt 34-27 þar sem Alexander Petersson skoraði 4 mörk fyrir Grosswallstadt.

Minden og Gummersbach skildu jöfn 32-32 í hörkuleik þar sem Snorri Steinn skoraði 13 mörk fyrir Minden og nýtti öll 5 víti sín í leiknum og Einar Örn Jónsson skoraði 6 mörk. Guðjón Valur Sigurðsson skoraði 6 mörk fyrir Gummersbach og Róbert Gunnarsson 4 - en markahæstur hjá liðinu var Serbinn Momir Ilic með 15 mörk.

Þórir Ólafsson skoraði 7 mörk fyrir Lubbecke þegar liðið vann góðan útisigur á Dusseldorf 36-29 og Gylfi Gylfason skoraði 3 mörk fyrir Wilhelmshavener í sigri liðsins á Wetzlar 29-28. Þá tapaði Balingen heima fyrir Kronau 25-28, Nordhorn lagði Göppingen 30-29 og Hildesheim burstaði Melsungen 37-28.

Kiel og Hamburg eru efst í deildinni með 56 stig, Flensburg hefur 51 stig, Gummersbach 49 líkt og Nordhorn, Magdeburg hefur 48 stig og Lemgo 43 stig. Hildesheim er á botni deildarinnar með 11 stig, Lubbecke hefur 15 stig, Wetzlar 16 stig, Dusseldorf 17 stig og Minden er úr bráðri fallhættu með 18 stig í 14. sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×