Enski boltinn

Joey Barton gagnrýnir forráðamenn Man. City

Joey Barton hefur alltaf þótt vera skapstór leikmaður.
Joey Barton hefur alltaf þótt vera skapstór leikmaður. MYND/Getty

Joey Barton, leikmaður Manchester City á Englandi, hefur gagnrýnt stjórnarmenn félagsins harðlega fyrir að hafa ekki hugmynd um hvert þeir vilja stefna með félagið. Barton telur að tímabilið í ár hafi verið algjörlega misheppnað og að stuðningsmenn liðsins eigi betri árangur skilinn. Hann náist hins vegar ekki án þess að betri leikmenn komi til liðsins.

"Þetta félag og stuðningsmenn þess eiga á skilið að vera að berjast á toppnum. Það erum við ekki að gera. Ef ég væri stuðningsmaður liðsins hefði ég ekki borgað til að sjá okkur spila á þessum tímabili," segir Barton.

Hinn 24 ára gamli Barton skrifaði undir nýjan samning við félagið síðasta sumar en hann er ekki ánægður með þær litlu framfarir sem hafa orðið hjá liðinu í ár. "Það verða að vera áætlanir um framtíðina. Það nægir að horfa á staðreyndir málsins varðandi leikmannakaup," sagði Barton og gagnrýndi nokkra af nýju leikmönnum liðsins, án þess að nefna nokkur nöfn.

"Það hafa ekki verið keyptir nægilega góðir leikmenn. Það er ekki hægt að veðja á leikmenn sem hafa skorað sex mörk í sex leikjum í belgísku deildinni. Nokkrir hafa staðið sig ágætlega en mannskapurinn er ekki nægilega góður til að koma liðinu upp á næsta stig. Sjáið Reading og Everton. Þau lið hafa ekki eytt eins miklu og við, en samt eru þau betri," segir Barton.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×