Innlent

Bankarnir högnuðust um 208 milljarða króna

Viðskiptabankarnir þrír og fjárfestingabankinn Straumur Burðarás högnuðust um 208 milljarða króna á síðasta ári. Þetta jafngildir ríflega tveimur komma sjö milljónum króna á hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu.

Ofurgróði er hugtak sem hengdist við bankana þegar hagnaður þeirra fór að fikrast yfir tugmilljarðinn en nú er heildarhagnaður Glitnis, Kaupþings og Landsbankans 164 milljarðar.

Straumur-Burðarás birti svo sitt uppgjör undir kvöld og þar högnuðust menn um 45 milljarða sem er methagnaður.

Samtals græddu þessi fjórir bankar á síðasta ári 209 milljarða eða tvöhundruð og níu þúsund milljónir króna. Ef þessum hagnaði væri dreift á á allar fjögurra manna fjölskyldur landsin fengi hver fjölskylda tvær milljónir og sjöhundruð þúsund krónur.

Kaupþing hagnaðist mest eða um 85 milljarða, 26 milljörðum meira en árið áður. Glitnir græddi rúma 38 milljarða, 19 milljörðum meira en árið áður og Landsbankinn græddi 50 milljarða, 60 prósentum meira en árið áður. Straumur Burðarás hagnaðist um 45 milljarðar

Til samanburðar við 209 milljarða króna hagnað má geta þess að heildarkostnaður við stærstu framkvæmd íslandssögunnar, Kárahnjúkavirkjun, er tæpir hundrað milljarðar, eða sem svarar til gróða bankanna á hálfu ári. Með ársgróðanum væri hægt að endurnýja fiskiskipaflotann og gott betur eða byggja um 7000 nýjar fjögurra herbergja íbúðir á 30 milljónir stykkið. Það er vel yfir öllum fjölda íbúða á Akureyri.

Fréttir af bankahagnaðinum eru ekki allar komnar því Sparisjóðirnir eiga eftir að skila afkomutölum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×