Innlent

Greiðslubyrði heimilanna eykst

Greiðslubyrði heimilanna í landinu hefur vaxið um tvöhundruð og fimmtíu þúsund krónur á ári, miðað við árið í fyrra. Formaður Samfylkingarinnar segir heimilin bera kostnaðinn af mistökum ríkisstjórnarinnar í hagstjórn. Bankarnir græði hinsvegar sem aldrei fyrr.

Formaður Samfylkingarinnar hóf utandagskrárumræðu um efnahagsmál og sagði að það stefndi í að greiðslubyrði heimilanna hækkaði um tæplega tuttugu og tvo milljarða á þessu ári. Hún vitnaði í orð Seðlabankastjóra um að teflt hefði verið á tæpasta vað í efnahagsstjórninni.

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði íslenskt efnahagslíf níðsterkt, þar kæmi til sveigjanleiki í efnahagslífinu og gríðarlega sterk staða ríkissjóðs og traust lífeyrissjóðakerfi. Framkvæmdir í virkjunarmálum hefðu þó reynt á efnahagslífið sem og sviptingar á húsnæðismarkaði.

Birgir Ármannsson sagði athyglisvert að gagnrýni formanns Samfylkingarinnar sneri einkum að skattalækkunum, breytingum á húsnæðismarkaði og Kárahnjúkavirkjun.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði mestu máli skipta að fjölskyldurnar í landinu væru að borga tvöhundruð og fimmtíu þúsund krónum meira í afborganir og vexti en í fyrra, einungis vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×