Innlent

Þurfti að fljúga blindflug hluta af ferðinni

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar

Indverji sem gerir tilraun til að setja heimsmet í hnattflugi á vélknúni fisi er nú staddur hér á landi. Hann flaug hingað til lands frá Grænlandi í gær við erfiðar aðstæður en mikil ísing myndaðist á vélinni og hann þurfti að fljúga blindflug hluta úr ferðinni.

Rahul Monga er yfirmaður í indverska flughernum hann hefur nú ásamt félaga sínum Anil Kumar flogið til tíu landa á sextíu og fjórum dögum. Tilgangurinn að reyna að slá heimsmet í hnattflugi á vélknúnu fisi. Heimsmetið sem nú er í gildi er nítíu og níu dagar en Monga vonast til að ná að klára ferðina á innan við áttatíu dögum. Veðrið hefur þó sett strik í reikninginn og eru þeir þegar á eftir áætlun.

Monga lenti vélinni á Reykjavíkurflugvelli í gærkvöldi en hann kom frá Kulusuk í Grænlandi. Hann segir flugið hafa verið erfitt. Hann hafi fundið fyrir miklum kulda, ísing hafi myndast á vélinni og hann þurft að fljúga blindflug hluta úr ferðinni. Á Reykjavíkurflugvelli tók nokkur hópur fólks á móti honum, meðal annars indverski sendiherrann.

Fisvélar eru mun léttari en aðrar flugvélar og að hámarki komast tveir í vélina er hámarksþyngd hennar fimm hundruð kíló. Þar sem flogið var yfir opið haf þurfti að hafa björgunarbát með í vélinni og vegna þyngdar hans og bensíns sem var á vélinni flaug Rahul einn hingað til lands frá Grænlandi. Félagi hans fór beint til Færeyja með annarri flugvél en þangað heldur Rahul frá Íslandi. Rahul þurfti að vera í blautbúning á leiðinni ef svo færi að vélin hrapaði.

Fisflug er vaxandi sport á Íslandi og hefur flugflotinn á Íslandi stækkað um 50 fisflugvélar á síðustu fimmtíu árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×