Lífið

Fæddist 20 mínútur yfir tólf

Jóhanna Þorbjargardóttir. Rétt náði að fæðast á árinu 1977, þótt tæpt hafi verið.
Jóhanna Þorbjargardóttir. Rétt náði að fæðast á árinu 1977, þótt tæpt hafi verið.

Jóhanna Þorbjargardóttir var fyrsta barn ársins 1977 og átti því þrítugsafmæli laust eftir miðnætti í gær.

„Ég er fædd klukkan 20 mínútur yfir miðnætti, þannig að ég held yfirleitt upp á afmælið mitt með veislu á gamlárskvöld,“ segir Jóhanna. „Ég hélt upp á þrítugsafmælið með veislu heima hjá mér.“

Jóhanna segir að afmælið hennar gleymist ekki þrátt fyrir að það sé umkringt hátíðarhöldum af öðrum toga. „Fyrst er óskað gleðilegs árs og svo syngja allir fyrir mig afmælissönginn og gefa gjafir. Flestir eru of þreyttir á nýársdag til að ég geti haldið upp á þetta þá.“

Árið 1977 var meira umstang í kringum fyrsta barn ársins, að sögn Jóhönnu. „Þetta var allt mjög spennandi á sínum tíma. Ég á fullt af blaðaúrklippum og ég og foreldrar mínir fengum fullt af gjöfum. Þetta þótti miklu merkilegra á þessum tíma.“

Frægt er að foreldrar keppist við að barnið þeirra verði fyrsta barn ársins. Hjá Jóhönnu var þetta nokkuð öruggt og nokkrir klukkutímar voru í fæðingu næsta barns.

Jóhanna rekur heildverslunina Kleifarás ásamt móður sinni og systur og stundar hestamennsku af miklum móð. „Ég held að árið 2007 verði gott ár,“ segir Jóhanna að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.