Innlent

Stór hrygningarstofn engin trygging

Það tryggir ekki góða nýliðun að byggja upp stóran hrygningarstofn, segir Jón Kristjánssonm, fiskifræðingur. Hann leggur fram töluleg gögn sem sýna að samhengið sé raunar þveröfugt. Hann bendir einnig á að nýliðun sé til muna lélegri síðustu tuttugu ár í kvótakerfi en tvo áratugi á undan í frjálsum veiðum.

Fáir fiskifræðingar hafa verið jafnumdeildir og Jón Kristjánsson enda heldur hann því fram að vísindamenn Hafró og raunar Alþjóða hafrannsóknarráðsins séu á villigötum. Allt tal um ofveiði og áhersla á friðun sé ranghugsun og fullyrðir hann að hvergi hafi tekist að byggja upp fiskistofn með friðunaraðgerðum. Því hefur ekki verið á móti mælt.

Í Hádegisviðtalinu á Stöð 2 í dag benti hann á að stofnmælingar í togararalli þar sem dregið væri ár eftir ár á sömu veiðislóð og stofninn miðaður þaðan út horfi fram hjá því að þorskurinn færi sig um set. Stofnmælingin væri því röng.

Auk þess telur hann firru að leggja ofuráherslu á að byggja upp stóran hrygningarstofn því það væri engin trygging fyrir öflugri nýliðun - og raunar þveröfug, sérstaklega þegar þorskurinn sé horaður og fái ekki æti. Hann bendir á gögn frá 1955 sem sýni að það sé ekki samhengi á milli stærðar hrygningastofns og nýliðunar. Raunar virðist samhengið vera öfugt tölfræðilega - minni hrygningarstofn gefi af sér betri nýliðun. Hann bendir einnig á að frá því að kvótakerfið var sett á fyrir rúmum 20 árum hafi nýliðun verið að meðaltali 30 prósent verri en áratugina tvo á undan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×