Innlent

Segir frummatsskýrslu alsendis ófullnægjandi

Frá Helguvík.
Frá Helguvík. MYND/Pjetur

Landvernd telur frummatsskýrslu vegna álvers í Helguvík alsendis ófullnægjandi til frekari málsmeðferðar og gagnrýnir hversu mikið álverið muni menga, eða 40 prósentum meira en álver Alcoa í Reyðarfirði.

Landvernd hefur unnið umsögn um frummatskýrslu á umhverfisáhrifum vegna álversins og segir skýrsluna aðeins fjalla um lítið brot af þeim umhverfisáhrifum sem óhjákvæmilega myndu fylgja álveri í Helguvík. Beina samtökin því til Skipulagsstofnunar að fresta frekari málsmeðferð þar til frummatsskýrslur áformanna í heild sinni verða kynntar fyrir almenningi. Nánast ekkert sé fjallað um orkuflutninga og virkjanir þó svo að þessir hlutar áformanna séu líklegir til þess að valda mestu umhverfisáhrifunum.

Bendir Landvernd á að samkvæmt skýrslunni eigi að virkja fjögur svæði, Seltún, Sandfell, Austurengjar og Trölladyngju, og þá verði um umtalsverðar framkvæmdir að ræða vegna raforkuflutninga um Strandaheiði, yfir Sveifluháls, Núpshlíðarháls og Móhálsadal. Þessar óhjákvæmilegu framkvæmdir hafi ekki farið í gegnum mat á umhverfisástæðum.

Samtökin benda enn fremur á að með samanburði á losunartölum áformaðs álvers í Helguvík við nýjasta álverið á Íslandi, álver Alcoa í Reyðarfirði, komi í ljós að mengun á hvert framleitt tonn af áli yrði allt að 40 prósentum meiri í álveri Norðuráls í Helguvík en hjá álveri Alcoa á Reyðarfirði. Ekki sé útskýrt hvers vegna áformað sé að reisa álver sem mengar jafn mikið og raun ber vitni þegar ljóst megi vera að hægt væri að gera mun betur ef vilji stæði til þess.

Þá segja samtökin að virkjunaráform á Krýsuvíkursvæðinu virðist ekki samræmast hugmyndafræði um sjálfbæra þróun. Fram hafi komið að svæðin geti gefið 15.100 megavött á ári en samkvæmt því myndi áformuð vinnsla á 400 megavöttum þurrmjólka svæðin á 35-40 árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×