Innlent

Mikil fjölgun umsókna skýrir meðal annars lengri biðlista

Á annað þúsund börn á aldrinum 6-9 ára eru nú á biðlista hjá Íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkur eftir vistun á frístundaheimili í vetur. Erfiðlega gengur að fá starfsfólk á heimilin og þá hefur umsóknum um vistun fjölgað mikið milli ára.

Líkt og undanfarin ár hefur gengið erfiðlega að fá starfsfólk á frístundaheimilin en að sögn Soffíu Pálsdóttur, skrifstofustjóra tómstundamála hjá ÍTR, er ástandið nú verra í fyrra. Það kemur meðal annars til vegna þess að umsóknum um vistun á frístundaheimili hefur fjölgað um 330 á milli ára. „Þar að auki fjölgaði umsóknum í fyrra um 250 frá árinu þar á undan þannig að fjölgunin er því mikil á tveimur árum," segir Soffía.

Alls þarf að ráða í 300 stöður hjá frístundaheimilunum en nýlega hafði aðeins tekist að ráða í tæplega níutíu þeirra. Soffía segir að verið sé að ráða fleiri inn þessa dagana um leið og stundarskrár í framhaldsskólum og háskólum liggi fyrir. ÍTR reiði sig mikið á skólafólk í starfseminni. Soffía segir baráttuna um vinnuafl í landinu gríðarlega og það hafi sýnt sig að það bitni á umönnunargeiranum.

Soffía segir ljóst að ekki takist að tryggja öllum börnum pláss á frístundaheimili fyrir 22. ágúst í næstu viku þegar grunskólar taka til starfa eftir sumarfrí. Verið sé að reyna að ráða sem flesta inn þannig að biðlistinn styttist. Hún segir aðspurð að vandinn sé ekki bundinn við eitt svæði á höfuðborgarsvæðinu fremur en annað en í fyrra hafi gengið erfiðlega að fá starfsfólk á frístundaheimilin í úthverfunum.

Soffía hvetur foreldra til að reyna hjálpa hver öðrum með parnapössun á meðan verið sé að leysa vandann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×