Nú hefur komið í ljós að sennilega hafa starfsmenn á úrslitaleik Fram og Hauka í deildarbikarkeppni karla í handbolta skráð vitlausan fjölda marka fyrrnefnda liðsins í fyrri hálfleik.
Fjölmiðlamenn sem voru á leiknum eru sammála um að Fram hafi skorað sautján mörk í fyrri hálfleik, en ekki átján. Samkvæmt ritaraborðinu skoraði Andri Berg Haraldsson sjö mörk í leiknum en sex samkvæmt fjölmiðlamönnum.
Samkvæmt þessu var rétt staða þegar Fram hélt í sína síðustu sókn 28-28, en ekki 29-28 fyrir Fram.
Þar sem stigataflan sýndi stöðuna 29-28 töldu Haukar að þeir væru með tapaðan leik í höndunum enda aðeins nokkrar sekúndur til leiksloka.
Framhaldið er óljóst en væntanlega munu Haukar kæra leikinn ef þetta reynist vera rétt.