Innlent

Ríkisstyrkir til sauðfjárræktar hækka um 300 milljónir króna

Ríkisstyrkir til sauðfjárbænda verða um tvær milljónir króna að meðaltali á hvert býli á næsta ári, samkvæmt nýjum búvörusamningi. Árleg framlög ríkisins til búgreinarinnar hækka um þrjúhundruð milljónir króna.

Forystumenn bændasamtakanna undirrituðu samninginn fyrir hönd bænda í gær en þeir Árni Mathiesen fjármálaráðherra og Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra fyrir hönd ríkissjóðs. Samningurinn gerir ráð fyrir að stuðningur ríkisins við sauðfjárrækt hækki upp 3.350 milljónir króna á næsta ári. Framlögin lækki síðan í áföngum á sex ára samningstíma um eitt prósent á ári að raungildi. Sauðfjárbændur sem njóta greiðslumarks eru nú um 1600 talsins og þýðir samningurinn því að meðaltali liðlega tvær milljónir króna í ríkisstyrki á hvern þeirra á ári eða um 175 þúsund krónur að jafnaði á mánuði. Bóndi með 400 kinda bú mun sem dæmi fá um tvær og hálfan milljón króna í beingreiðslur á ári en því til viðbótar styrkir ríkið bændur með öðrum framlögum, svo sem til gæðastýringar, ullarnýtingar og markaðsstarfs. Auk hækkunar ríkisstyrkja eru gerðar nokkrar breytingar frá fyrri samningi, svo sem þær að skylda til að flytja hluta kjötsins úr landi er felld niður í áföngum og eldri bændur, 64 ára og eldri, fá tækifæri til að hætta búskap án þess að tapa beingreiðslum.

Alþingi þarf að staðfesta nýjan búvörusamning sem og bændur í almennri atkvæðagreiðslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×