Innlent

Menntaráð vill hækka styrki til einkarekinna grunnskóla

Menntaráð Reykjavíkurborgar hefur samþykkt að beina því til borgarráðs að hækka styrki til einkarekinna grunnskóla í borginni úr rúmum 515 krónum á nemanda á ári í 600 þúsund og að hækkunin verði afturvirk frá áramótum.

Í tilkynningu frá menntaráði segir að framlaginu sé ætlað að jafna aðstöðu nemenda í Reykjavík og beinir ráðið því til skólanna að taka tillit til þessarar breytingar við ákvörðun skólagjalda og lækka þau sem næst 10 prósentum á þeim tíma sem tillagan tekur til eða eftir því sem aðstæður leyfa.

Haft er eftir Júlíusi Vífli Ingvarssyni, formanni menntráðs, að samkvæmt samkomulagi sem gert hefur verið við ríkið sé ljóst að framlög til einareknu skólanna muni aukast en ráðið vilji ekki bíða eftir útreikningum Hagstofunnar á því hversu mikið framlögin eigi að hækka heldur ríða á vaðið. „Aukið framlag til einkareknu skólanna er sanngirnismál en þannig er tryggt að foreldrar sem senda börnin sín í þessa skóla búi við jafnræði þar sem opinberir styrkir eru annars vegar auk þess sem stuðlað er að faglegu skólastarfi og aukinni fjölbreytni í menntamálum," segir Júlíus Vífill.

Kostnaðarauki vegna þessa er um 35 milljónir króna á ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×