Innlent

Eimskip yfirtekur stórfyrirtæki

Eimskip verður stærsta frysti- og kæligeymslufyrirtæki í heiminum með yfirtöku á fyrirtækinu Versacold. Hjá Versacold starfa fjögurþúsund og fimmhundruð starfsmenn sem reka 180 frysti- og kæligeymslur í fimm heimsálfum. Velta Eimskips eykst um helming við yfirtökuna sem er uppá sextíu og sjö milljarða króna.

Yfirtakan á fyrirtækinu Versa-cold sem er með höfuðstöðvar í Kanada er vinsamleg og er gerð með samþykki stjórnar. Kaupverðið - 67 milljarðar - er greitt með sölu eigna, eigin fé og lántöku í kanadískum bönkum. Í fyrra keypti Eimskip fyrirætkið Atlas sem er í svipuðum rekstri og Versacold. Saman mynda fyrirtækin þétt net enda á mismunandi markaðssvæðum og með ólíka viðskiptamenn. Eimskip einbeitir sér hér eftir að þessum rekstri - samhliða skipaflutningum.

Magnús Þorsteinsson, stjórnarformaður Eimskips segir að sóknarfæri séu í skiparekstrinum samhliða rekstri þessara frysti- og kæligeymslna. Í síðustu viku tilkynnti Eimskip að félagið drægi sig alfarið úr flugrekstri en upphafið að sjálfstæðum fjármálaumsvifum Magnúsar hér á landi voru kaup á Atlanta flugfélaginu. Áður var Magnús í fyrirtækjarekstri með feðgunum Björgólfi Guðmundsyni og Björgólfi Thor, syni hans í Rússlandi.

Stjórn Versacold hefur lagt blessun sína yfir þessa yfirtöku ólíkt yfirtöku Eimskips í fyrra á Atlas sem var fjandsamleg. Með yfirtökunni eykst velta Eimskips úr 100 milljörðum í 150 milljarða. Stefnt er því að velta félagsins verði 200 milljarðar innan tveggja ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×