Innlent

Sýknaðir af smygli á yfir 800 e-töflum

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í dag tvo karlmenn af ákæru um smygla á ríflega 800 e-töflum til landsins frá Hollandi í nóvember í fyrra.

Var annar þeirra ákærður fyrir að hafa skipulagt innflutninginn með því að fara til Hollands og láta ónafngreindan mann senda töflurnar með pósti til hins mannsins sem ákærður var í málinu.

Það voru hollenskir tollverðir sem fundu efnin í póstinum og létu lögreglu hér á landi vita. Hún fjarlægði pillurnar úr sendingunni og kom fyrir gerviefnum. Lögregla lét svo til skarar skríða þegar sendingin var komin heim til síðarnefnda mannsins.

Báðir neituðu þeir sök í málinu og sagði sá sem pakkinn var stílaður á að hann hefði tekið á móti honum í greiðaskyni við hinn. Hann hefði ekki vitað að fíkniefni væru í pakkanum heldur talið að um bækur væri að ræða. Taldi dómurinn út frá framburði vitna ekkert fram komið sem benti ótvrætt til þess að maðurinn hefði vitað að fíkniefni væru í pakkkanum, hvað þá að um væri að ræða yfir 800 e-töflur. Var hann því sýknaður.

Þá þótti dómnum margt benda til þess að sá sem ákærður var fyrir að skipuleggja innflutninginn hefði óhreint mjöl í pokahorninu og verulegar líkur væru á því að hefði tekið þátt í refsiverðri háttsemi. Hins vegar var framburður vitna ekki metinn manninum í óhag og gegn staðfastri neitun hans taldi dómurinn ekkert fram komið í málinu sem benti ótvírætt til þess að maðurinn hefði brotið af sér. Var hann því líka sýknaður.

Hins vegar voru e-töflurnar gerðar upptækar og þá greiðist sakarkostnaður, nærri 700 þúsund krónur, úr ríkissjóði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×