Lífið

Úr skugga Davids Beckham

Umboðsmaðurinn knái
Simon Fuller er að leggja drög að heimsyfirráðum Beckham-hjónanna í Bandaríkjunum.
Umboðsmaðurinn knái Simon Fuller er að leggja drög að heimsyfirráðum Beckham-hjónanna í Bandaríkjunum.

Félagaskipti Davids Beckham frá spænska stórliðinu Real Madrid til L.A. Galaxy hafa vakið furðu og undran margra knattspyrnuforkólfa. Victoria er hins vegar sögð vera í skýjunum.

„David Beckham? Er það ekki maðurinn hennar Victoriu?“ sagði bandarísk húsmóðir þegar hún var innt eftir viðbrögðum sínum við félagaskiptum Davids til L.A. Galaxy. Victoria hefur verið aðal-umfjöllunarefnið í bandarískum fjölmiðlum enda fastagestur á forsíðum slúðurblaðanna í Bandaríkjunum undanfarin ár. Kaninn þekkir vel til Victoriu frá árunum með Spice Girls og hún hefur náð nokkrum vinsældum vestra með gallabuxnalínu sinni fyrir Rock og Republic en meðal þeirra sem hafa klæðst flíkum Victoriu eru ofurfyrirsætan Elle Macpherson og leikkonan Scarlett Johansson.

Victoria nýtur mikils stuðnings frá Simon Fuller, umboðsmanni þeirra hjóna hjá afþreyingarfyrirtækinu 19 Entertainment. Fuller var maðurinn á bak við Spice Girls-ævintýrið og er þegar farinn að toga í alla sína spotta, rær nú öllum árum að því að útvega Victoriu hlutverk í sjónvarpsþáttunum Aðþrengdar eiginkonur. Og „Fína kryddið“ hyggst ekki láta staðar numið við leiklistina. Hún undirbýr nýtt merki undir nafninu DVB (David/Victoria/Beckham) sem á að framleiða sólgleraugu, hliðartöskur og gallabuxur. Ef af þessu verður gæti verðmæti vörumerkis Beckham-hjónanna hlaupið á hundruðum milljarða og Victoria verður andlit þess.

Victoria á þegar í góðu sambandi við stóru nöfnin í Hollywood. Með vinfengi sínu við Tom Cruise og Katie Holmes hefur hún komist í kynni við Will Smith og Jada Pinkett Smith, Jim Carrey og Jenny McCarthy og Jennifer Lopez og Marc Anthony. Victoria hefur kynnt sér kenningar Vísindakirkjunnar, sem tekið hefur upp á sína arma margar af stærstu stjörnum Englaborgarinnar. „Ég hef rætt við Tom um trúna hans og mér finnst það sem þau gera vera mjög flott,“ lét Victoria hafa eftir sér fyrir skömmu en það þykir gefa góða raun fyrir fólk á uppleið að tileinka sér þessi trúarbrögð.

Victoria svífur um á bleiku skýi þessa dagana og á eftir að njóta þess að vera í kastljósi fjölmiðlanna, jafnvel meira en sjálfur David Beckham. Flestir Bandaríkjamenn halda enda að knattspyrna sé íþrótt hugsuð fyrir konur og börn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.