Skoðun

Innritun í framhaldsskóla

Innritun í framhaldsskólana stendur yfir til 11. júní næst komandi. Stóra spurningin til unga fólksins er þessi: „Í hvaða framhaldsskóla ætlar þú?“ Því fer fjarri að allir umsækjendur á höfuðborgarsvæðinu hafi slíkt val.

Þeir framhaldsskólar á höfuðborgarsvæðinu, sem bjóða eingöngu upp á bóknámsbrautir til stúdentsprófs (hér kallaðir „bóknámsskólar“), fá umsóknir frá mun fleiri nemendum en þeir hafa pláss fyrir. Þessir skólar hafa farið þá leið að taka inn nemendur eftir einkunnum. Til að eiga möguleika á inngöngu, þurfa umsækjendur að hafa háar einkunnir (heyrst hefur 7,5 til 8,0 í samræmdum prófum). Umsækjandi með einkunnir undir 7,0, á litla sem enga möguleika á því að komast í bóknámsskólana. Ef hann sækir eingöngu um þessa skóla, þvælist umsóknin um kerfið og endar á borði menntamálaráðuneytisins sem finnur nemandanum skóla þvert á óskir hans.

Framhaldsskólar sem bjóða upp á bæði bóknámsbrautir til stúdentsprófs og starfsnámsbrautir, taka við fjölbreyttum hópi nemenda. Allflestir þeirra eru með lægri einkunnir en 7,0. Í þessum hópi eru nemendur með námserfiðleika af ýmsum toga, svo sem dyslexíu, athyglisbrest og ofvirkni. Prófkvíðnir einstaklingar sem ekki gátu komið þekkingu sinni til skila í samræmdum prófum. Nemendur af erlendum uppruna. Nemendur með langvinna sjúkdóma.

Nemendur sem þurfa að vinna fyrir sér með námi. Börn foreldra sem ekki eru í stakk búnir til þess að aðstoða þau með heimanám þegar komið er á framhaldsskólastig. Og svo má lengi telja. Myndarlegt og hæfileikaríkt ungt fólk sem vill ná árangri í lífinu.

Að stéttskipta nemendahópnum stangast á við það grundvallarmarkmið skóla, að búa nemendur undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi. Ég vil hvetja verðandi framhaldsskólanema og forráðamenn þeirra að kynna sér vel mismunandi kröfur skóla og möguleika á skólavist. Upplýsingar á menntagatt.is, um inntökuskilyrði á námsbrautir, segja ekki nema tæplega hálfan sannleikann.

Höfundur er náms- og starfsráðgjafi hjá Fjölbrautaskólanum við Ármúla.




Skoðun

Sjá meira


×