Innlent

Skipstjóri fer í felur eftir handtökuskipun

Eyborgin
Eyborgin

„Það kemur bara ekki til greina að ég horfi eftir manninum mínum í fangelsi á Möltu fyrir að bjarga tuttugu mannslífum,“ segir Fanný Hjartardóttir, eiginkona Ólafs Ragnarssonar, skipstjóra á Eyborgu.

Ólafur hefur í um eitt ár starfað við flutninga á túnfiskskvíum fyrir maltverskt fyrirtæki sem hefur Eyborgina á leigu.



Í lok júní var skipið á leið frá Líbýu til Möltu þegar Ólafur vaknaði um morgun og um tuttugu manns voru komin upp á kvína hjá honum. Hann tók fólkið um borð í skipið og flutti til Möltu í óþökk þarlendra yfirvalda sem síðan hafa fólkið í umsjón sinni. Fólkið er frá Eþíópíu, Nígeríu, Sómalíu og Erítreu. Sögðu þau tíu manns hafa drukknað þegar bát þeirra hvolfdi áður en þau björguðust upp á kvína.



Í gær færði Ólafur svo Fannýju þær óvæntu fréttir að skipun hefði verið gefin út um handtöku hans fyrir að taka fólkið um borð. Ekki náðist tal af Ólafi sjálfum í gærkvöld en Fanný, sem rætt hafði við hann, sagði að þá hefði hann enn verið frjáls ferða sinna á Möltu. Engir aðrir úr áhöfn Eyborgar eru Íslendingar.



„Hann hringdi í mig í sjokki og ég fékk náttúrlega kast en er enn að reyna að fá það staðfest að það hafi í raun og veru verið gefin út handtökuskipun á hann.



„Ég er alveg á nálum,“ segir Fanný sem síðast sá mann sinn í apríl.

Birgir Sigurjónsson, eigandi Eyborgarinnar, segist enn ekkert annað hafa heyrt um málið en að Ólafur hafi lesið um það í dagblaði á Möltu að til stæði að handtaka hann.



„Hann fer bara huldu höfði núna og er með slökkt á símanum. Sjálfur er ég að ímynda mér að þetta sé einhver fabúlering í blaðamanninum,“ segir Birgir sem kveðst munu hafa samband í dag við utanríkisráðuneytið. „Þetta er að verða hið skrýtnasta mál. Malta tók við þessu fólki af fúsum og frjálsum vilja og í mínum huga var málið leyst.“



Utanríkisráðuneytið hafði ekki haft veður af máli Ólafs þegar Fréttablaðið leitaði til þess.



Yfirvöld á Möltu eru sögð hafa vaxandi áhyggjur af því að ólöglegir innflytjendur sem koma þangað með bátum tengist hryðjuverkum.

Yfirmaður í lögreglunni á Möltu, sem Fréttablaðið ræddi við, sagðist ekki kannast við að gefin hefði verið út handtökuskipun á Ólaf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×