Innlent

Umdeildu hafsvæði loks skipt

Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra.
Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra.

Samskipti Íslands og Færeyja voru rædd á hádegisverðarfundi Valgerðar Sverrisdóttur utanríkisráðherra í dag og Jóannesar Eidesgaard lögmanns Færeyja.

Undirritaður var samningur um skiptingu umdeilds hafsvæðis milli landanna og sérstaklega farið yfir stöðu og framkvæmd Hoyvíkursamningsins, sem er fríverslunarsamningur milli Íslands og Færeyja.

Skipun sameiginlegrar nefndar um framkvæmd samningsins var flýtt, en nefndin mun eiga sinn fyrsta fund í Færeyjum síðar í þessum mánuði. Hún mun hafa það hlutverk að þróa áfram og fylgjast með framkvæmd samningsins.

Við útfærslu efnahagslögsögunnar í 200 sjómílur árið 1975 varð til umdeilt hafsvæði milli landanna sem íslendingar miðuðu út frá Hvalbak, en ekki grunnlínu landanna. Því mótmæltu Danir fyrir hönd Færeyja. Svæðið er 3.700 km2 að stærð og fá Íslendingar rúm 56% þess svæðis.

Þá var aðild Færeyja að EFTA rædd á fundinum, en Ísland hefur stutt fyrirætlanir Færeyjinga í þeim efnum.

Ráðherra upplýsti einnig á fundinum um opnun nýrrar ræðisskrifstofu Íslands í Þórshöfn þann 1.apríl n.k.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×