Innlent

EFTA dómur hefur ekki áhrif á fjárhættustarfsemi á Íslandi

Höskuldur Kári Schram skrifar
MYND/EÍ

Ólíkleg er að dómur EFTA dómstólsins í tengslum við rekstur fjárhættustarfsemi í Noregi muni hafa áhrif hér á landi að mati framkvæmdastjóra Íslenskrar getspár. Hann segir dóminn undirstrika það sem áður hefur komið fram og málið sé í höndum stjórnvalda líkt og áður fyrr. Framkvæmdastjóri Íslandsspila, sem rekur spilakassa Rauða krossins, segir dóminn engin áhrif hafa á sinn rekstur.

„Fljótt á litið virðist þessi dómur ekki hafa nein áhrif á okkar starfsemi," sagði Bergsveinn Sampsted, framkvæmdastjóri Íslenskrar getspár, í samtali við Vísi. „Dómurinn undirstrikar það sem áður hefur komið fram. Það er, eftir sem áður, í höndum stjórnvalda að gefa leyfi til reksturs af þessu tagi."

EFTA dómstóllinn í Lúxemborg kvað í dag upp dóm í máli sem varðar norska löggjöf um happdrætti, veðmál og fjárhættuspil. Að mati dómsins, sem var ráðgefandi álit til Héraðsdómsins í Osló, er vafasamt að meina einkaaðilum að bjóða upp á happdrætti og fjárhættuspil á meðan slíkur rekstur er leyfður án hindrana í góðgerðarskyni. Gerir dómurinn þá kröfu að löggjöf sem byggir á markaðshindrunum í þessum efnum endurspegli raunverulegan vilja til að fækka tækifærum til spilamennsku. Að öðrum kosti verði að hleypa einkaaðilum að markaðinum.

Magnús Snæbjörnsson, framkvæmdastjóri Íslandsspila, segir dóminn ekki hafa nein áhrif á rekstur spilakassa Rauða krossins. „Þetta hefur engin áhrif á okkar rekstur. Við hvetjum aldrei til spilamennsku og auglýsum aldrei. Ég sé því ekki hvernig þetta ætti að snerta okkur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×