Lífið

Átta ár eru ágætis törn

Bjarni Daníelsson lætur af störfum sem óperustjóri Íslensku óperunnar í lok þessa starfsárs í júní næstkomandi.

Bjarni tók við starfinu sumarið 1999 og hefur því gegnt því í átta ár í vor. „Mér finnst þetta vera orðið gott. Þetta er tímabundið starf þótt það hafi ekki verið teknar prinsippákvarðanir um hvað tímabilin eigi að vera löng. Mér finnst þetta passa mér ágætlega. Átta ár eru ágætis törn í svona starfi. Ef maður er ekki búinn að því sem maður getur gert á þeim tíma er ekki víst að maður komi því nokkru sinni í verk," segir Bjarni, sem verður 58 ára síðar á árinu. Hann er kvæntur Valgerði Gunnarsdóttur, yfirmanni upplýsingamála hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, og eiga þau þrjú uppkomin börn.

Bjarni segist ekki vera búinn að gera það upp við sig hvað hann taki sér fyrir hendur næst. „Ég er með ákveðna hluti í sigtinu. Ég fer áreiðanlega að gera eitthvað allt annað. Ef ég byggi í útlöndum væri ég að eltast við að fá vinnu við að reka annað óperuhús en ég ætla að vera á Íslandi." Að sögn Bjarna hefur tíminn hjá Íslensku óperunni verið mjög gefandi og ótrúlega skemmtilegur.

„Það er búið að vera skemmtilegt og verðugt viðfangsefni að byggja upp starfsemi Íslensku óperunnar og ég vona svo sannarlega að það gangi vel í framtíðinni, hver sem tekur við. Það er bjart framundan. Við eigum von á nýju óperuhúsi í Kópavogi eftir fáein ár og í því felast geysilega mikil fyrirheit um vöxt og uppbyggingu," segir hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.