Lífið

Ingvi Hrafn óttast ekki laxaleysið

Laxár landsins hafa verið að gefa óvenju lítið af sér það sem af er sumri.
Laxár landsins hafa verið að gefa óvenju lítið af sér það sem af er sumri.

„Ég hef ekki nokkrar áhyggjur af ástandinu. Ég er sannfærður um að það kemur sprenging á næstunni, spurningin er aðeins hvenær hún verður,“ segir sjónvarps-, laxveiði- og athafnamaðurinn Ingvi Hrafn Jónsson, sem eins og undanfarin ár er við stjórnvölinn í Langá í Borgarfirði í sumar.



Sem kunnugt er hefur laxveiði á landinu verið með minnsta móti það sem af er sumri og er Langá þar engin undantekning. Að sögn Ingva hafa 20 laxar veiðst það sem af er, sem er það minnsta sem hann hefur upplifað á þeim 35 árum sem hann hefur hrærst í bransanum. „Laxinn er núna um 10 dögum seinni en í meðalári og það gerist einfaldlega stundum að hann er seinna á ferðinni. Stundum er hann 10 dögum fyrr, eins og gerðist hjá mér fyrir nokkrum árum, og þá gaf júnímánuður 200 laxa. Meðalmánuður er um og yfir 100 laxar,“ segir Ingvi Hrafn.



Margar kenningar hafa verið uppi um mögulegar örsakir þess að laxgengdin er eins lítil og raun ber vitni en ljóst þykir að miklir þurrkar og sólríki í júnímánuði hafi áhrif, enda flestar ár vatnsminni en venjulega á þessum árstíma. Ingvi Hrafn hefur fulla trú á að laxarnir skili sér.

„Einu áhrifin sem þetta hefur áhrif á er að veiðin í júní er léleg en þá verður því mun meira í hinum mánuðunum. Og ég er opinn til 20. september þannig að það er nægur tími til stefnu,“ sagði Ingvi Hrafn og glotti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.