Andy Summers, gítarleikari hljómsveitarinnar The Police, segir ekki útilokað að hann og félagar í hljómsveitinni taki sig til og geri nýja plötu þegar tónleikaferð þeirra lýkur á næsta ári. "Það væri mikil áskorun fyrir okkur að setjast niður og semja eftir öll þessi ár," sagði hinn 64 ára gamli Summers í samtali við blaðamenn í Dublin.
Hljómsveitin gaf á sínum tíma út fimm breiðskífur en meðlimir hennar slitu samstarfi árið 1984. Í kjölfarið hóf söngvarinn Sting sólóferil.
Hljómsveitin kom svo aftur saman til að fagna 30 ára afmæli sínu og hefur verið á tónleikaferð um heiminn síðan í maí.
Summers sagði þá félaga eiga eftir að ræða plötuútgáfuna nánar en sagði tónleikaferðina hafa hrisst tríóið saman og að ný sköpunarverk væru alls ekki úr vegi.