Innlent

Eitrað fyrir lúpínum

Búið er að eitra innan þjóðgarðsins í Jökulsárgljúfrum, með fram veginum við Ásbyrgi, þó ekki fyrir skordýrum eða öðrum meindýrum heldur á eitrið að eyða plöntutegund einni sem mörgum þykir mikill skaðvaldur.

Skaðvaldurinn sem um ræðir er lúpínan. Einhverra hluta vegna þykir hún ekki henta innan þjóðgarðsins og segja sumir ástæðu vera þá að hún er af erlendu bergi brotin.

Öðrum sem koma að landgræðslu finnst lúpínan hins vegar sóma sér vel innan þjóðgarðsins enda hefur sambúð hennar og grávíðis, gulvíðis og birkis gengið ljómandi vel. Eitrið sem notað var til að eyða lúpínunni hefur líka áhrif á þessar plöntur og finnst mörgum það skjóta skökku við að Landgræðslan skuli vera að eitra innan þjóðgarðsins þar sem ekki má einu sinni drepa tófu. Segja sumir starfsmenn Landgræðslunnar eitrunina fyrir neðan allar hellur og ekki byggja á öðru en rasisma.

Það má túlka það svo, segir Stefán Hafsteinsson, héraðsfulltrúi Landgræðslunnar á Norðurlandi eystra, en ástæða þess að þjóðgarðsvörður hefur áhyggjur er sú að lúpínan breiðir hratt úr sér og er það mat manna að innan þjóðgarðsins eigi bara að vera íslenskar plöntur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×