Innlent

40 missa vinnuna á Ísafirði við gjaldþrot Miðfells

Stjórnendur rækjuvinnslunnar Miðfells hf. funduðu með starfsfólki í morgun þar sem gjaldþrot fyrirtækisins var kunngjört. Frá þessu er greint á heimasíðu Bæjarins besta í dag. Um 40 manns missa vinnuna í kjölfarið.

Á hluthafafundi Miðfells í gær var ákveðið að óska eftir gjaldþrotaskiptum. Ótímabundin vinnslustöðvun var tilkynnt á mánudag. Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga, sat fundinn og segir hann í samtali við Bæjarins besta að þó þetta hafi legið í loftinu hafi starfsfólki verið brugðið. Hann segir að fyrir liggi að leiðbeina starfsfólkinu um næstu skref í málinu.

„Nú tekur skiptastjóri við og ef hann ákveður að halda rekstrinum ekki áfram brýni ég fyrir fólki að skrá sig strax hjá Svæðisvinnumiðlun Vestfjarða", segir Finnbogi í samtali við BB. Starfsfólk Miðfells ætlar að hittast á skrifstofu Verkalýðsfélagsins n.k. mánudag kl. 10 til skrafs og ráðagerða.

Frétt um málið má lesa á heimasíðu Bæjarins besta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×