Innlent

Vatnstjón í húsnæði Elko við Smáratorg

Höskuldur Kári Schram skrifar
Smáratorg í Kópavogi.
Smáratorg í Kópavogi. MYND/VG

Söluvörur skemmdust í verslun Elko við Smáratorg í nótt þegar einn krani í úðarakerfi verslunarinnar fór í gang. Verslunarstjóri segir skemmdirnar óverulegar og tjónið ekki mikið í krónum talið.

„Við teljum okkur hafa verið mjög heppin," sagði Árni Þór Árnason, verslunarstjóri Elki við Smáratorg, í samtali við Vísi. „Þetta er mjög lítið tjón og spurning um einhverja þúsundkalla."

Mikið vatn lak inn í húsnæði Rúmfatalagersins við Smáratorg í nótt þegar vatnsúðarakerfi í lagarými verslunarinnar fór í gang. Verslun Rúmfatalagersins er við hliðina á verslun Elko.

Fjármálastjóri Rúmfatalagersins telur að þrýstimunur í úðarakerfi hafi valdið því að kerfið fór af stað en allt vatn var tekið tímabundið af Smáratorginu í nótt vegna framkvæmda við nýbyggingar á svæðinu. Rekstraraðilar við Smáratorg voru ekki látnir vita fyrirfram að vatnið yrði tekið af. Einnig lak eitthvað vatn inn í húsnæði Læknavaktarinnar.

Að sögn Árna fór aðeins einn krani í úðarakerfi Elko af stað en sá er staðsettur rétt fyrir framan afgreiðslukassa verslunarinnar. Nuddteppi sem lágu í dalli við kassana eyðilögðust og þá blotnaði um 20 fermetra gólfflötur. Að öðru leyti urðu ekki frekari skemmdir

Búið er dæla öllu vatni í burtu og opnaði verslunin á hefðbundnum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×