Innlent

Vinnumálastofnun kanni samninga starfsmannaleiga og sjúkrahúsa

MYND/Vilhelm
Ögmundur Jónasson, þingflokksformaður Vinstri - grænna og fulltrúi flokksins í félags- og tryggingamálanefnd, hyggst fara fram á það á fundi nefndarinnar í dag að Vinnumálastofnun kanni samninga sem heilbrigðisstofnanir hafa gert við starfsmannaleigur. Hann segist hafa séð samning hjá sjúkraliða á vegum starfsmannaleigu þar sem launin séu undir ákvæðum kjarasamninga.

Félags- og tryggingamálanefnd Alþingis kom saman til fundar klukkan 16 þar sem meðal annars var ætlunin að fara yfir málefni erlendra starfsmanna í ljósi nýjustu tíðinda, en eins og greint var frá í síðustu viku voru tugir starfsmanna við vinnu við Kárahnjúka án tilskilinna leyfa. Það kom í ljós eftir rútuslys í Bessastaðabrekku í Fljótsdal.

Full ástæða til að skoða málin

Að sögn Guðbjarts Hannessonar, formanns félags- og tryggingamálanefndar, er ætlunin að fara yfir lagaumhverfið og framkvæmd laganna í þessum málaflokki. Ætlunin var að kalla meðal annars á fundinn fulltrúa Vinnumálastofnunar, ASÍ og yfirtrúnaðarmann að Kárahnjúkum. „Það eru brotalamir og full ástæða til að skoða þetta," sagði Guðbjartur fyrir fundinn en vildi heyra hvað gestir fundarins hefðu að segja áður en hann tjáði sig frekar.

 

Óprúttnir aðilar geti nýtt sér ástandið

Það var Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri - grænna, sem óskaði eftir fundinum. Hann sagðist í samtali við Vísi vilja fá gögn frá Vinnumálastofun í málinu en stofnunin væri eftirlitsaðili með vinnumarkaðnum hér á landi. Hann vildi fá upplýsingar um stöðuna við Kárahnjúka þar sem í ljós hefði komið að fjöldi verkamanna væri óskráður.

„Svo hafa verið að koma upp fleiri mál," segir Ögmundur og vísar til samninga sem starfsmannaleigur, sem skipta við heilbrigðisstofnanir hér á landi, hafa gert. Hann hafi séð einn samning þar sem laun starfsmanns, sjúkraliða, hafi verið undir ákvæðum kjarasamninga. „Ég ætla að óska eftir því að Vinnumálastofnun fari fram á að sjá þessa samninga sem gerðir hafa verið við starfsmannaleigur á sjúkrahúsum," segir Ögmundur.

Hann bendir á að allur gangur geti verið á slíkum samningum, bæði geti kjör verið betri en kjarasamningar kveði á um og hitt að fólk sé undir lögbundnum kjörum. „Það er ljóst að það eru miklar brotalamir á eftirlitinu. Ef ekki er brugðist við geta óprúttnir aðilar nýtt sér ástandið," segir Ögmundur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×