Innlent

Lögregluaðstoð veitt í 40 prósentum tilfella

Sighvatur Jónsson skrifar

Lögregluaðstoð var veitt í rúmum fjörutíu prósenta tilfella þegar hringt var til Neyðarlínunnar í júní mánuði. Um tuttugu prósent símtalanna var ekki hægt að greina þar sem fólk hringdi óvart úr farsímum, eða sleit sjálft símtalinu.

Í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi sögðum við sögu manns sem kvartaði yfir því að Neyðarlínan hefði ekki brugðist við símtali hans. Ókunnugur maður komst inn í svefnherbergi mannsins og af ótta við að styggja hinn óboðna gesta hringdi maðurinn í Neyðarlínuna úr farsíma sínum án þess að mikið bæri á.

Í kjölfar fréttarinnar hafa fleiri sögur borist fréttastofu þar sem kvartað er undan viðbragsleysi Neyðarlínunnar.

Ef erindi er ekki borið upp þegar hringt er til Neyðarlínunnar greina símaverðir hvort ástæða sé til að gera eitthvað í málinu. Sé hringt úr GSM-síma hefur Neyðarlínan ekki nákvæmari upplýsingar en þær frá hvaða sendi símtalið kemur.

Samkvæmt tölum um flokkun símtala frá júní mánuði var lögregluaðstoð veitt í tæplega fjörutíu og fjórum prósentum tilfella. Í 11 prósentum símtala var hringt óvart úr GSM síma, en þrátt fyrir að lyklaborð farsíma sé læst er alltaf hægt að hringja neyðarsímtöl.

Í tæplega 9 prósentum tilvika sleit fólk sjálft símtalinu og tæplega 8 prósent voru sjúkraflutningar. Um 6 prósent eru flokkuð undir liðinn „Aðstoð - fyrirspurnir", og rúm 5 prósent símtala voru áframsend til lögreglu þótt ekki hafi verið óskað beinnar aðstoðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×