Innlent

Þarf meira fjármagn til að takast á við hvítflibbaglæpi

Hvítflibbaglæpir verða algengari með auknu flæði fjármagns í alþjóðasamfélaginu. Arðbærasti glæpurinn í dag er sala á eftirlíkingum tískuvara sem færir mun meiri hagnað en fæst af flutningi og sölu fíkniefna. Mun meira fjármagn þarf til efnahagsrannsókna hér á landi til að takast á við glæpi af þessu tagi.

Samtök atvinnulífsins og saksóknari efnahagsbrota stóðu fyrir morgunverðarfundi á Grand hótel í morgun. Þar voru ræddir svokallaðir hvítflibbaglæpir og viðbrögð við þeim.

Sarah Jane Hughes, prófessor í lögum við Indiana-háskóla í Bandaríkjunum, segir alþjóðavæðinguna og aukið peningaflæði milli landa eiga stóran þátt í aukinni tíðni glæpa á þessu sviði. Hagnaður af sölu eftirlíkinga af lúxusvörum er arðbærastur en peningaþvottur er vaxandi vandamál á alþjóðavísu með auknu fjármagni.

Helgi Magnús Gunnarsson, saksóknari efnahagsbrota, segir upphæðir í slíkum málum hér á landi hafa aukist gífurlega á síðustu misserum. Hann telur íslenska bankakerfið veikt fyrir peningaþvætti.

Hann segir embættið varla geta sinnt þeim málum sem fyrir liggi en refsivörslukerfið verði að virka svo einhver varnaðaráhrif séu í þeim þannig. Þá vill Helgi fleiri starfsmenn í embættið og aukna heimild til lögreglusátta í málum af þessu tagi. Í Noregi sé þessari aðferð beitt með góðum árangri og spari hún bæði tíma og fjármagn.

Garðar G. Gíslason hæstaréttarlögmaður segir að tafir á meðferð mála af þessu tagi séu óviðunandi. Hann kennir um óskilvirku kerfi, mannfæð og of mörgum stofnunum sem komi að málunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×