Enski boltinn

Eiður hefur ekkert sagt um United

nordicphotos/afp

„Eiður hefur ekkert kvótað eitt eða neitt. Ég efast stórlega um að hann hafi sagt þetta," sagði Arnór Guðjohnsen um meint ummæli Eiðs Smára Guðjohnsen í enskum fjölmiðlum í gær.

Fréttir frá slúðurmiðlum þar í landi höfðu eftir Eiði að Manchester United væri klúbbur sem hann hefði áhuga á að ganga til liðs við ef hann færi frá Barcelona.

„Hann er bara að einbeita sér að stöðu sinni hjá Barcelona þangað til annað kemur í ljós. Enskir fjölmiðlar hringdu í mig í gær [föstudag] og sögðu að hann hefði sagt eitthvað sem var ekki rétt. Ég er nánast öruggur að þetta sé ekki eftir hann," sagði Arnór.

Umboðsmaður Eiðs segir jafnframt að Barcelona sé fyrir löngu búið að gefa út að mál leikmanna verði skoðuð eftir að deildakeppninni lýkur. „Það er alveg ljóst að það fer mikið af stað eftir þennan síðasta leik um helgina. Það er hans fyrsti valkostur að vera áfram hjá Barcelona en þessi knattspyrnuheimur er óútreiknanlegur. Hvernig Barcelona sér tímabilið á eftir að koma í ljós," sagði Arnór. Hann sagði jafnframt að United hafi séð mjög eftir því að hafa ekki keypt Eið frá Bolton á sínum tíma en félagið skoðaði það mál mjög vel.

En er 100 prósent að Eiður verði áfram hjá Barcelona? „Málin standa þannig að hann er á samningi og vill vera hér áfram. Hvað tíminn leiðir í ljós veit enginn. Barcelona hefur ekki talað við neinn um framtíðina, hvorki mig né Eið, og gera ekki strax," sagði Arnór.

Ef hann myndi fara frá Barcelona, er England þá hans fyrsti valkostur? „Eigum við ekki að segja að England sé það sem hann þekkir mjög vel til og auðvitað kallar það á menn. En eins og staðan er í dag er hann ekki með hugann við neitt annað en þar sem hann er," sagði Arnór.

Eiður verður ekki með Barcelona í kvöld vegna meiðsla.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×