Skoðun

Afsökun og árétting

Kolbrún Halldórsdóttir skrifar

Um leið og ég biðst velvirðingar á þeim mistökum að hafa ranglega sagt, í grein minni hér í blaðinu föstudag 08. júní að Brennisteinsfjöll vanti á lista yfir væntanleg verndarsvæði í stefnuyfirlýsingu stjórnarflokkanna, langar mig að beina sjónum að nýútgefnu rannsóknarleyfi á jarðhita í Gjástykki.

Eitt af síðustu embættisverkum Jóns Sigurðssonar, fyrrverandi iðnaðarráðherra, var að gefa Landsvirkjun slíkt leyfi, á svæði sem enn er tiltölulega óraskað og með hátt verndargildi. Útgáfudagurinn er 10. maí, tveimur dögum fyrir kosningar. Í ljósi þess að nýr umhverfisráðherra Þórunn Sveinbjarnardóttir hefur lýst því yfir að ríkisstjórnin muni setja í forgang að vernda háhitasvæði landsins, þótti mér eðlilegt að fara þess á leit við nýjan iðnaðarráðherra að hann afturkallaði rannsóknarleyfið vegna Gjástykkis, enda engar framkvæmdir hafnar þar. Hann svaraði því skýrt í umræðum á Alþingi sl. fimmtudag að það myndi hann ekki gera.

Það sem veldur mestum vonbrigðum með viðbrögð ráðherrans er að Samfylkingin sagðist fyrir kosningar vilja að dregið yrði úr ásókn stóriðjufyrirtækja í náttúruperlurnar okkar þar til fyrir lægi rammi um það hverjum þeirra væri ásættanlegt að fórna og hverjar bæri að vernda. Eina leiðin til að gefa slíkt svigrúm er að senda út skýr merki um að frekari uppbygging stóriðju sé ekki vel séð og að setja orkufyritækjunum skorður. Vilji iðnaðarráðherra sýna stóriðjufyritækjunum að náttúruvernd njóti forgangs hjá ríkisstjórninni, þá er tækifæri til þess núna. Hann hefur það í hendi sér að þyrma Gjástykki. Það væri óskandi að hann staldraði við og endurskoðaði hug sinn.

Höfundur er þingmaður Vinstri grænna.




Skoðun

Sjá meira


×