Viðskipti erlent

M&S fylgist grannt með Sainsbury

Horfa til sainsbury Stjórnendur M&S áskilja sér rétt til að leggja fram yfirtökutilboð.
Horfa til sainsbury Stjórnendur M&S áskilja sér rétt til að leggja fram yfirtökutilboð.

Stuart Rose, forstjóri Marks & Spencer, segir að fyrirtækið íhugi að leggja fram tilboð í Sainsbury, þriðju stærstu stórmarkaðakeðju Bretlands. „Eignir sem þessar koma ekki oft inn á markaðinn,“ sagði hann á miðvikudaginn og bætti við að eigendur M&S myndu álíta hann vera fífl ef hann skoðaði ekki málið.

Hlutabréf í Sainsbury hækkuðu um tæp átján prósent í febrúar eftir að þrír fjárfestingasjóðir undir forystu CVC Capital Partners sögðust vera að íhuga að taka Sainsbury yfir. Það myndu verða stærstu skuldsettu fyrirtækjakaup í evrópskri sögu.

Styrkur M&S liggur í fatnaðinum en Sainsbury hefur sterka stöðu í matvörunni. Éf félögin færu í eina sæng mætti ná fram hagstæðari samningum við birgja og spara tugir milljónir punda í stjórnunarkostnað. Samanlögð velta félaganna yrði 25 milljarðar punda á ári samanborið við 30 milljarða punda hjá Tesco, stærstu stórmarkaðakeðju Bretlands.

Stjórnendur M&S ætla ekki að svo stöddu að leggja fram formlegt tilboð en áskilja sér rétt til þess ef stjórn Sainsbury óskar eftir slíku eða CVC Capital Partners setur fram formlegt yfirtökutilboð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×