Viðskipti erlent

Farsímafélög sameinast um leitarvél fyrir síma

Jón Aðalsteinn Bergsveinsson

skrifar

Orðrómur er uppi um að sjö farsímarisar í Evrópu og í Bandaríkjunum ætli að sameinast um að smíða leitarvél í farsímum af þriðju kynslóð í farsímatækni. Búist er við að vélin muni keppa við sambærilegar leitarvélar Google og Yahoo!

Í vefútgáfu breska dagblaðsins Telegraph um síðustu helgi segir að fulltrúar breska farsímarisans Vodafone, franska farsímafélagsins Telecom, Telefonica á Spáni, sem sinnir jafnt innanlandsmarkaði og Suður-Ameríku, hins þýska Telekom, indverska farsímafélagsins Hutchison Whampoa, Telecom á Ítalíu auk bandaríska farsímafyrirtækisins Cingular ætli að hittast á leynilegum fundi á hinni árlegu farsímaráðstefnu, sem hefst í Barcelona á Spáni á mánudag í næstu viku.

Helsta ástæðan fyrir samvinnunni mun vera sú að tryggja afkomu farsímafélaganna í framtíðinni en fyrirtækin hafa þurft að horfa upp á lægri tekjur vegna lækkunar á farsímagjöldum þrátt fyrir að farsímanotendum hafi fjölgað ár frá ári.

Þá er jafnframt horft til þess að farsímanotkun muni taka stórt stökk á næstu árum, ekki síst með aukinni útbreiðslu þriðju kynslóðarinnar í farsímatækni. Blaðið segir áætlanir standa til að um tuttugu prósent farsímanotenda í Bretlandi muni hafa aðgang að háhraðatengineti undir lok þess árs. Með auknum hraða verði meiri eftirspurn eftir leitarvélum í farsímum líkum þeim sem er fyrir á netinu, að sögn blaðsins.

Ekki liggur nákvæmlega fyrir hver næstu skref farsímafyrirtækjanna verða. Þá er í gildi samningur á milli nokkurra af fyrirtækjunum, meðal annars Vodafone og Hutchison við Google um innbyggðar leitarvélar í farsímum fyrirtækjanna. Leitarvélin í símunum er ekki að fullu virk en reiknað er með að af því verði síðar á þessu ári. Óvíst er hvort fyrirtækin muni rifta samningum við Google í kjölfarið eður ei.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×