Viðskipti erlent

Tímamótadagur í lífi Chaplins

Charlie Chaplin. Fimmti febrúar var mikilvægur dagur í lífi gamanleikarans Charlie Chaplin.
Charlie Chaplin. Fimmti febrúar var mikilvægur dagur í lífi gamanleikarans Charlie Chaplin.

Fimmti febrúar var merkisdagur á margan hátt í lífi breska grínleikarans Charlies Chaplin. Það er hins vegar fjarri að þessi tímamót, sem voru af tvennum toga, hafi gerst á sama árinu því sautján ár liðu frá fyrsta merkisdeginum fram að þeim næsta.

Fyrsti merkisdagurinn var hinn 5. febrúar árið 1919 þegar Chaplin stofnaði kvikmyndafyrirtækið United Artists ásamt Hollywoodstjörnunum Douglas Fairbanks og Mary Pickford, sem jafnframt var ein hæstlaunaða leikkona Bandaríkjanna með eina milljón Bandaríkjadala í laun fyrir hverja mynd. Fjórði stofnandinn var svo bandaríski leikstjórinn D. W. Griffith.

Fyrirtækið var upphaflega stofnað sem framleiðslufyrirtæki fyrir listamennina og horfðu þau til þess að með því gætu þau haft meiri áhrif á myndir sínar en ef þau heyrðu undir önnur fyrirtæki. United Artists fékk ekki góðar undirtektir samkeppnisaðila fyrirtækisins enda var haft eftir Richard A. Rowland, forstjóra kvikmyndafyrirtækisins Metro Pictures, að nú hefðu sjúklingarnir tekið hælið yfir.

Í fyrstu horfðu stofnendurnir til þess að framleiða fimm kvikmyndir hver undir merkjum United Artists. En svo fór ekki því þegar starfsemi hófst árið 1920 hafði framleiðslukostnaður við kvikmyndir rokið upp úr öllu valdi auk þess sem dagar stuttra kvikmynda voru liðnir. Það var því snemma ljóst að markmið stofnendanna gætu seint staðist. Fjórum árum síðar var reksturinn svo orðinn þungur í vöfum og taprekstur fram undan.

Þótt United Artists hafi gengið í gegnum nokkrar breytingar um tíðina er kvikmyndaframleiðsla fyrirtækisins enn í fullum blóma og framleiðir það myndir á borð við Hótel Rúanda og Capote. Á meðal hluthafa er bandaríski stórleikarinn Tom Cruise, en hann gekk til liðs við fyrirtækið eftir að bandaríski kvikmyndarisinn Paramount Pictures sleit samningum við hann eftir 14 ára samstarf.

Þennan sama dag árið 1936, sautján árum eftir stofnun United Artists, var meistaraverk Chaplins, Nútíminn frumsýnt undir merkjum fyrirtækisins. Um talsverð tímamót var að ræða fyrir Chaplin enda var þetta síðasta þögla kvikmyndin sem leit dagsins ljós. Myndin var þó ekki með öllu þögul því rétt undir lok hennar fékk rödd Chaplins að hljóma lítillega í fyrsta sinn á hvíta tjaldinu.

Leikarinn tók sér fjögurra ára hlé eftir þetta. Næsta mynd hans var Einræðisherrann, fyrsta talmynd leikarans, þar sem grín var gert að Adolf Hitler.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×