Lífið

Kronika ekki sama og Kronikan

Ritstjóri Króniku segir málið vera hálf fyndið en skólablað Fjölbrautarskólans við Ármúla ber nafnið Kronika
Ritstjóri Króniku segir málið vera hálf fyndið en skólablað Fjölbrautarskólans við Ármúla ber nafnið Kronika

Nemendur og kennarar eru ekki sáttir við að nýtt vikurit hafi fengið sama nafn og skólablaðið þeirra.

„Við vorum ekkert rosalega sátt við þetta en núna finnst okkur þetta eiginlega bara hálf fyndið," segir Daníel Sigurður Elvarsson, ritstjóri Króniku, skólablaðs Fjölbrautarskólans við Ármúla. Frá því var greint í fjölmiðlum nýverið að nýtt vikublað undir stjórn Sigríðar Daggar Auðunsdóttir komi út í lok næsta mánaðar og það undir heitinu Krónikan, nafni sem er skuggalega líkt skólablaði fjölbrautarskólans. „Mér finnst þetta hljóma eins og við myndum skíra nemendafélagið okkar Sirkus nema bara með ú-i," segir Daníel.



Skólastjórinn Gísli Ragnarsson segir að verið sé að skoða réttarstöðu blaðsins

„Eiginlega fannst okkur það helst súrt í broti að fram kom á netinu að blaðið okkar hefði ekki komið út síðustu sex árin. Við höfum að minnsta kosti verið með blað á hverju ári síðan 2001," segir Daníel og bætir því við að skólastjóri skólans sé að skoða réttarstöðu blaðsins.

Og Gísli Ragnarsson, skólastjóri Fjölbrautarskólans við Ármúla, staðfesti það í samtali við Fréttablaðið. Tók undir orð Daníels að honum hefði verið nokkuð brugðið þegar hann sá að blað skólans hefði verið úrskurðað látið í nokkur ár á netinu. „Krónika er í smíðum sjöunda árið í röð og hefur verið mjög veglegt, frá sextíu til hundrað síður," segir skólastjórinn stoltur og bætir því að útgáfan hefur verið rekin án nokkurra styrkja frá skólayfirvöldum. „Hún hefur því kostað heilmikið markaðsstarf og krakkarnir hafa áhyggjur af því að stóra blaðið gæti sett strik í þann reikning," bætir Gísli við en vildi ekki gefa upp hvort til einhverra aðgerða yrði gripið.

Ritstjóri Krónikunnar segir að ekki komi til greina að breyta um nafn á nýju vikuriti sínu.

Sigríður Dögg Auðunsdóttir, ritstjóri Krónikunnar, sagði ekki koma til greina að breyta nafninu enda væri nafn skólablaðsins alltaf bundið við ártöl. Nýjasta blaðið væri því „Krónika 2006". „Þau virðast annnars taka þessu ansi létt því það er víst viðtal við mig á síðum næsta blaðs," segir Sigríður Dögg.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.