Lífið

Með fíkjur í fyrirrúmi

Rúnar Gíslason borðar fíkjur eins og epli og lumar á ýmsum góðum ráðum.
Rúnar Gíslason borðar fíkjur eins og epli og lumar á ýmsum góðum ráðum. MYND/Stefán

Fíkjur geta verið ráðgátur fyrir leikmenn. Rúnar Gíslason hjá Kokkunum veisluþjónustu þekkir þó leyndardóminn og gaf Fréttablaðinu góð ráð um notkun ávaxtanna. „Fíkjur eru í raun og veru ekki líkar neinum öðrum ávöxtum,“ segir Rúnar, sem borðar þær eins og epli. „Það þarf ekkert að fletta hýðinu af, bara bíta í.“

Rúnar segir fíkjur vera afar vinsælan fylgifisk villibráðar. „Þá gerir maður oft marmelaði eða sultu úr þeim. Fíkjurnar eru skornar í grófa teninga, settar í pott með sykri og kannski einum dropa af ediki. Svo er þetta soðið niður, bara ekki of lengi,“ segir hann.

Einnig má búa til afspyrnugóða eftirrétti úr ávöxtunum. „Það er hrikalega gott að gera karamellu á pönnu, skera fíkjurnar í báta, skella út í og bera fram með ís,“ segir Rúnar. „Svo má líka baka þær. Þá sker maður smá stykki ofan af, gerir kross í með hnífnum og þrýstir kjötinu aðeins upp, eins og maður gerir með bakaða kartöflu. Svo er brúnum hrásykri stráð í sárið og fíkjurnar bakaðar í ofni.“

Fíkjur geta þó verið mjög misjafnlega þroskaðar, að sögn Rúnars. „Sumar eru grænleitar, en þær eru bestar svona bláleitar að utan,” segir Rúnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.