Lífið

Skiptar skoðanir um Middleton á Íslandi

Eyrún Ingadóttir er hæstánægð með Middleton og þykir hún minna á Díönu.
Eyrún Ingadóttir er hæstánægð með Middleton og þykir hún minna á Díönu.

Breska konungsfjölskyldan hefur verið í kastljósinu undanfarna daga, sér í lagi Vilhjálmur og kærasta hans, Kate Middleton og gera fjölmiðlar þvi skóna að trúlofun sé handan við hornið. Middleton hefur þegar unnið hug og hjörtu bresku þjóðarinnar en á Íslandi eru skoðanir skiptar meðal aðdánda aðalsfólks.

„Við erum hæstánægð með hana, hún er frábær,“ segir Eyrún Ingadóttir, kammerjómfrú Hins konunglega fjelags. „Hún minnir um margt á Díönu heitna prinsessu, móður Vilhjálms, er alþýðleg og prúð og á ábyggilega eftir að reynast konungsfjölskyldunni vel eftir hremmingar síðustu ára.“

Hildur Helga Sigurðardóttir blaðamaður er hins vegar ekki jafn hrifin af Middleton. „Hún virðist gjörsneydd öllum persónuleika út á við en hann á kannski eftir að koma í ljós þegar konungsfjölskyldan hefur níðst á henni í nokkur ár.“

Engu að síður telur Hildur hana velþegna andlitslyftingu fyrir konungsfjölskylduna, sem þurfi á fersku blóði að halda umfram blátt. „Það er ekki mikið um frambærilegar prinsessur nú til dags auk þess sem það er bara hollt fyrir þessa fjölskyldu að giftast út fyrir eigin raðir. Þau geta verið Díönu ævinlega þakklát að prinsarnir eru myndarlegir og börnin eiga sjálfsagt bara eftir að fríkka með aðstoð Middleton.“

Hildur vonar þó að Middleton reynist ekki jafn saklaus og trúgjörn og Díana var lengi framan af og hafi bein í nefinu. „Og vonandi hefur konungsfjölskyldan lært eitthvað af reynslunni. Ef hún heldur rétt á spilunum gæti þessi stúlka reynst þeim afar dýrmæt.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.