Lífið

Um stolin þjóðkvæði og frumleikakröfuna

Nigel Watson
Nigel Watson

Nigel Watson er enn á ný kominn í heimsókn til Íslands, en hann er eins og flækingsfuglarnir, fer víða og tekur ástfóstri við suma staði. Nigel var áhrifamikill í leikhúslífi hér á áttunda áratugnum en hann rak þá leikhóp með Ingu Bjarnason.

Nú er hann hér til að kenna við þjóðfræðiskor Háskóla Íslands. Nigel Watson hefur starfað sem flytjandi, leikhúsmaður, tónlistarfræðingur, kennari og kennismiður hér og þar í heiminum í fjóra áratugi. Hann hefur sótt landið heim reglulega, flutt einleiki og sagnakvæði hér og kennir nú í janúarmánuði hraðnámskeið um blústónlist og samberandi tónlistarfræði.

Hann er um þessar mundir gistikennari við háskólann í Glamorgan og er að skrifa doktorsritgerð um samband velskra trúboða á nítjándu öld við fólk af Khasi og Jaintia ættbálkum á Norðaustur-Indlandi.

Í kvöld mun hann halda fyrirlestur á vegum Félags þjóðfræðinga á Íslandi í húsi Sögufélagsins við Fischersund kl. 20. Þar spyr hann um rétt flytjenda á að tileinka sér frásagnir og söngva úr hvaða hefð sem er. Eru í því fólgnar gripdeildir á óáþreifanlegum menningararfi annarra eða er þess háttar tileinkun einmitt frjó rót skapandi misskilnings? Í heimi þar sem alþjóðleg valda- og viðskiptatengsl minna enn mjög á nýlendutímann krefst saga alþjóðlegra menningartengsla nánari rannsóknar sem og sambandið milli ritaðrar og munnlegrar sagnahefðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.